Hrekkjavökunætur

Hrekkjavökunætur

Hrekkjavaka nálgast. 

Ég ætlaði að skrifa um þetta í fyrra en svo varð ekkert úr því sökum annríkis. 

Í fyrra var ég nefnilega að leita eftir myndum til að láta fylgja Facebookpósti, þar sem ég var að reyna að hvetja fólk til að mæta á Halloween ballið í skólanum, þegar ég datt inná að skoða myndir af gamaldags hrekkjavökubúninga (e.vintage costumes). Ég varð vægast sagt mjög heilluð af hversu heimagerðir og einlægir þeir voru, svo ekki sé minnst á að þeir voru margir frekar drungalegir. Vafalaust spilar eitthvað inní að þetta eru gamlar ljósmyndir og þannig leggst auka lag af drunga á þær, en það er líka eitthvað við búningana sem heillar mig. 

Hrekkjavaka er upprunin af keltensku hátíðinni Samhain (þýðir sumarlok á keltnesku), þar sem haldið var uppá lok sumars og dauða sólarinnar. Þetta markaði lok uppskerunnar og byrjun vetrarins. Í rauninni voru þetta nokkurskonar áramót og taldi fólk að á þessum tímamótum 31.október/1.nóvember þynntist „veggurinn“ á milli þessa heims og annara heima, þannig að álfar, andar og vættir áttu auðveldari leið í okkar heim og voru sérstaklega mikið á kreiki um þetta leyti. Samhain er ennþá geltneska nafnið yfir Hrekkajvöku og var notað af sagnfræðingum lengi vel í stað Halloween.

Auðvitað svipar þetta til margra hátíða sem haldnar voru í öðrum menningarheimum á þessum árstíma. Halloween eins og við þekkjum það í dag er líklega bara samsuða af mismunandi siðum frá mismunandi heimshornum. 

Þörfin til að klæða sig uppí búninga á Hrekkjavöku kom ekki fyrr en á 19.öld og þá fyrst á Skotlandi og Írlandi. Hún færði sig ekki yfir til Bandaríkjanna fyrr en 20.öldin gekk í garð. Þá klæddi fólk sig einnig einungis upp sem myrkar yfirnáttúrulegar verur eins og draugar, beinagrindur, skrýmsli, vampírur, púkar og nornir. 

Það var ekki fyrr en um 1930 sem hugmyndin að „trick or treat“ varð til þegar Bandaríkjamenn ákváðu að fjölskylduvæða hátíðina og setja börnin í forgrunn. Það var gert til þess að stemma stigu við það vaxandi ofbeldi sem var farið að eiga sér stað á Hrekkjavökunótt. Siðurinn að ganga húsa á milli og betla fyrir mat eða penigum á þessum degi hafði samt lengi verið við lýði, sérstaklega á Bretlandseyjum og Írlandi. 

Venjulega tengjum við Hrekkjavöku mjög sterkt við Bandaríkin og mér fannst því áhugavert að komast að því að uppruni þessarar hátíðar er mun Evrópskari en ég hafði ímyndað mér. Meira að segja hinu þekktu útskornu grasker er upprunalega keltneskur siður, þar sem fólk skar ljósker úr næpum (sem það hafði meðferðis þegar það betlaði á Hrekkjavöku). Þegar siðurinn fluttist með innflytjendum til Bandaríkjanna þóttu graskerin vænlegri kostur. 

Hrekkjavaka þótti afbragðs tími til að stunda spádóma enda mikil virkni í loftinu á þessum tíma. Það var við hæfi að aðeins þeir vönustu í spádómslögnum myndu framkvæma þá því þetta þótti stórhættuleg iðja. Þó voru til nokkrir hlutir sem almúginn gat gert sjálfur. Til dæmis áttu ógiftar konur að setjast inní myrkt herbergi á Hrekkjavökunótt og líta í spegil. Þá áttu þær að sjá andlit framtíðarmanns síns birtast í speglinum. Ef hauskúpa birtist, þýddi það að þær myndu deyja áður en þær næðu að festa ráð sitt. 

Sjálf hef ég ekki ákveðið hvað ég ætla að dulbúa mig sem þessa Hrekkjavökuna en ég geri ráð fyrir að hugmyndin verði frekar sótt í Poppmenningu okkar daga frekar en furðuverur fortíðar. Það eru reyndar nokkrir búningar í þessari myndaflóru sem virka mjög heillandi, svo hver veit. 

Hræðilega Hrekkjavöku!

Heimildir voru fengnar af Wikipediu og af Attire Club. Myndir voru sóttar af Google, með því að googla vintage halloween costumes

Furðudýragarður Stjörnustríðanna

Furðudýragarður Stjörnustríðanna