Vinnustofublogg

Í svolítinn tíma hef ég verið að velta fyrir mér hvernig ég ætti að koma mér yfir á netið. Hvernig best væri að miðla mér og því sem ég er að dunda mér við á veraldarvefinn. Ég hef jú valið mér námsbraut, og  þar af leiðandi starfsbraut (vonandi), sem krefst þess að verk mín séu aðgengileg fyrir stærri hóp en bara facebook og instagram vini mína. Einhvernvegin þarf tilvist mín og minna verka að vera sýnilega heiminum. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að opna bloggsíðu. Það er raunar svolítið síðan að ég ákvað það, en í dag lét ég svo loksins verða af því.

Líka af því ég sakna þess að blogga. Ég er nefnilega svolítið bloggsíðubarn. Á mínum erfiðu unglingsárum var fátt svalara en að halda úti bloggsíðu, hvort sem einhver las hana eða ekki. Ég átti þær ófáar og var meira að segja í bloggsíðu-„gengi“ (tvem). Svo þegar bloggæðið rann sitt skeið þá svalaði ég bloggþörfinni með endalausum ferðalögum, þar sem afsökunin var að halda heimasitjandi hrúgum upplýstum um ævintýri mín í gegnum brakandi nýjar færslur. Fyrst héldum tvíeykið ég og Kristín Gests úti kristinogdora.wordpress.com þegar við fórum í reisu umhverfis hnöttinn og svo þegar ég bjó úti í Frakklandi fyrir rúmlega þrem árum þá hélt ég heimamönnum upplýstum í gegnum franskariverian.wordpress.com 

En þessi síða er meira svona vinnustofublogg. Minna blaður, meiri myndir (vonandi). Mér datt líka í hug að kalla það portofólíublogg en þar sem maður velur aðeins það besta í portofólíurnar sínar þá á það ekki alveg við í þessu tilfelli. Þessi bloggsíða er nefnilega kannski svolítið bara til að halda mér við efnið og deila því sem ég er að gera, sama hversu gott eða slæmt það kann að vera.

Svo voilà, dha.is er fædd, megi hún eiga langa og hamingjusama lífdaga og flæða í teikningum, prentum, málverkum og myndum.

Bjé Joð Joð

LJÓSmyndir

LJÓSmyndir